Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 403. máls.
Þskj. 519  —  403. mál.




Frumvarp til laga

um breyting á lögum nr. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs,
með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 132. löggjafarþingi 2005–2006.)




1. gr.

    Á eftir I. kafla laganna kemur nýr kafli, I. kafli A, Gjöld vegna mála á grundvelli laga um öflun sönnunargagna vegna ætlaðra brota á hugverkaréttindum, með einni nýrri grein, 3. gr. a, svohljóðandi:
    Í málum samkvæmt lögum um öflun sönnunargagna vegna ætlaðra brota á hugverkaréttindum skal greiða eftirfarandi gjöld í ríkissjóð:
     a.      Fyrir beiðni til héraðsdóms skv. II. kafla laganna          3.900 kr.
     b.      Fyrir beiðni til sýslumanns skv. III. kafla laganna          6.300 kr.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 14. gr. laganna:
     a.      27. tölul. 1. mgr. orðast svo:
    Fyrir umsókn og tilkynningu um íslenskan ríkisborgararétt:
       1.      Fyrir umsókn um íslenskan ríkisborgararétt          10.000 kr.
       2.      Fyrir tilkynningu um íslenskan ríkisborgararétt          5.000 kr.
     b.      Við 1. mgr. bætast fimm nýir töluliðir, 32.–36. tölul., svohljóðandi:
               32.      Fyrir afgreiðslu umsóknar um EES-dvalarleyfi fyrir 18 ára og eldri:
             a.      Fyrir afgreiðslu umsóknar um EES-dvalarleyfi, fyrsta leyfi          4.000 kr.
             b.      Fyrir afgreiðslu umsóknar um framlengingu á EES-dvalarleyfi          2.000 kr.
              33.      Fyrir afgreiðslu umsóknar um EES-dvalarleyfi fyrir yngri en 18 ára:
             a.      Fyrir afgreiðslu umsóknar um EES-dvalarleyfi, fyrsta leyfi          2.000 kr.
             b.      Fyrir afgreiðslu umsóknar um framlengingu á EES-dvalarleyfi          1.000 kr.
               34.      Fyrir afgreiðslu umsóknar um dvalarleyfi og búsetuleyfi fyrir 18 ára og eldri:
             a.      Fyrir afgreiðslu umsóknar um dvalarleyfi, fyrsta leyfi          8.000 kr.
             b.      Fyrir afgreiðslu umsóknar um búsetuleyfi          8.000 kr.
             c.      Fyrir afgreiðslu umsóknar um framlengingu á dvalarleyfi          4.000 kr.
               35.      Fyrir afgreiðslu umsóknar um dvalarleyfi og búsetuleyfi fyrir yngri en 18 ára:
             a.      Fyrir afgreiðslu umsóknar um dvalarleyfi, fyrsta leyfi          4.000 kr.
             b.      Fyrir afgreiðslu umsóknar um búsetuleyfi          4.000 kr.
             c.      Fyrir afgreiðslu umsóknar um framlengingu á dvalarleyfi          2.000 kr.
               36.      Beiðni til mannanafnanefndar um að setja nýtt nafn á mannanafnaskrá          2.000 kr.


3. gr.

    Á eftir 14. gr. a laganna kemur ný grein, 14. gr. b, svohljóðandi:
    Greiða skal 1.500 kr. fyrir ársáskrift að rafrænni útgáfu Lögbirtingablaðs.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi að undanskilinni 1. gr. sem öðlast gildi 1. júlí 2006.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum um aukatekjur ríkissjóðs.
    Í fyrsta lagi er lagt til að tekin verði gjöld af beiðnum til héraðsdóms og sýslumanns á grundvelli laga um öflun sönnunargagna vegna ætlaðra brota á hugverkaréttindum, en samhliða þessu frumvarpi er lagt fram frumvarp til slíkra laga.
    Í annan stað er lagt til að gjald fyrir umsókn um íslenskan ríkisborgararétt verði hækkað úr 1.350 kr. í 10.000 kr. og að gjald fyrir tilkynningu um ríkisborgararétt verði hækkað úr 1.350 í 5.000 kr.
    Í þriðja lagi er lagt til að tekið verði upp gjald fyrir afgreiðslu umsókna um dvalarleyfi og búsetuleyfi.
    Í fjórða lagi er lagt til að tekið verði upp gjald fyrir beiðni til mannanafnanefndar um samþykki fyrir nafni.
    Í fimmta lagi er lagt til að tekið verði gjald fyrir rafrænan aðgang að Lögbirtingablaði en gert er ráð fyrir í lögum nr. 15/2005, um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, að kveðið sé á um slíka gjaldtöku í lögum um aukatekjur ríkissjóðs.
    Breytingar þær sem lagðar eru til í frumvarpinu eru í takt við forsendur í tekjuáætlun fjárlagafrumvarps fyrir árið 2006.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Hér er lagt til að tekin verði gjöld af beiðnum til héraðsdóms og sýslumanns á grundvelli laga um öflun sönnunargagna vegna ætlaðra brota á hugverkaréttindum, en samhliða þessu frumvarpi er lagt fram frumvarp til slíkra laga. Við ákvörðun gjaldanna var höfð hliðsjón af ákvæðum laga um aukatekjur ríkissjóðs er kveða á um gjöld fyrir þingfestingu einkamáls og gjöld fyrir fullnustugerðir, enda er hér um nokkra samsvörun að ræða.

Um 2. gr.


    Í a-lið er lagt til að gjald fyrir umsókn um íslenskan ríkisborgararétt verði hækkað úr 1.350 kr. í 10.000 kr. og að gjald fyrir tilkynningu um ríkisborgararétt verði hækkað úr 1.350 í 5.000 kr. Mikil vinna og fyrirhöfn er í kringum veitingu ríkisborgararéttar, en umsóknir um ríkisborgararétt eru sendar til umsagnar Útlendingastofnunar og lögreglustjóra. Tilkynningar um íslenskan ríkisborgararétt eru hins vegar ekki sendar til umsagnar og þykir því eðlilegt að gjaldið sé lægra fyrir þær. Til samanburðar má geta þess að gjald fyrir ríkisborgarabréf í Danmörku er um 11.000 kr., í Finnlandi er gjaldið 38.000 kr., í Noregi er það 22.000 kr. og í Svíþjóð er gjaldið 16.500 kr.
    Í b-lið er lagt til er lagt til að tekið verði upp gjald fyrir afgreiðslu umsókna um dvalarleyfi og búsetuleyfi. Gríðarleg aukning hefur verið í umsóknum um slík leyfi á undanförnum árum og mikil vinna og umstang liggur að baki hverri afgreiðslu. Lagt er til að gjöldin verði á bilinu 1.000–8.000 kr.
    Loks er í b-lið lagt til að tekið verði upp hóflegt gjald fyrir beiðni til mannanafnanefndar um samþykki fyrir nafni.

Um 3. gr.


    Í lokamálslið 2. mgr. 7. gr. laga nr. 15/2005, um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, er gert ráð fyrir að kveðið sé á um gjald fyrir rafrænan aðgang að Lögbirtingablaðinu í lögum um aukatekjur ríkissjóðs. Hér er lagt til að það gjald verði 1.500 kr. en þess má geta að ársáskriftargjald fyrir prentaða útgáfu Lögbirtingablaðs er 12.000 kr.

Um 4. gr.


    Ákvæðið þarfnast ekki skýringar.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 88/1991,
um aukatekjur ríkissjóðs, með síðari breytingum.

    Með frumvarpi þessu eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum um aukatekjur ríkissjóðs sem eru í samræmi við forsendur tekjuáætlunar fjárlagafrumvarps fyrir árið 2006. Ekki er gert ráð fyrir að frumvarpið hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs verði það að lögum.